Alveg eðal kelling

Friday, February 16, 2007

Einu sinni var ég veik heima frá skólanum. Kannski um 10 ára. Ég var ekki beint veik, meira svona hálf veik og hálf að plata. Ég fékk stundum þannig daga líka þegar ég var lítil. Ég man eftir að hafa gengið um að leika draug í náttfötum til að reyna að vera sannfærandi. Ég held nú samt að mamma og pabbi hafi ekkert endilega trúað mér. En í þetta skiptið man ég eftir að vera að borða brauð upp í rúmi (ætli það hafi verið skringileg útfærsla á að fá foreldra mína til að trúa mér?). Ég var mjög svefngjörn á þessum aldri og sofnaði með gerbrauðið í munninum. Þegar ég vaknaði, svona 2 tímum seinna, var svo ógeðslegt bragð upp í mér að ég gat varla trúað að þessi munnur væri hluti af líkama mínum. Klukkutíma seinna var ég komin með hita.

Þessi minning kom að mér í dag þar sem mér líður eitthvað hálf undarlega og það rann upp fyrir mér að ég er lítið annað búin að borða, í frekar marga daga, en brauð. A minn er orðinn bakadrengur og bakar svo góð brauð að þau eru lostæti hvort sem er á morgnanna um miðjan daginn eða á kvöldin. Meira að segja í morgun vaknaði ég við ljúfa heimakærleiksgefandi brauðlykt. Kannski það sé samt ekki alveg málið að borða bara brauð þó svo að A minn geti það með léttum leik. Svona áður en ég sofna með það í munninum einn daginn.

En sko brauðin eru þess virði að koma í heimsókn til að smakka. Það finnst mér allavega.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home